Phibright Microneedling
Örnálameðferð
Phibright Microneedling er viðgerðar- og húðþéttimeðferð og hefur gefið góða raun þegar kemur að húðendurnýjun – og leiðréttingu húðástands.
Phibright meðferðin hentar þeim sem vilja bæta húðástand eins og:
Tapaða fyllingu og teygjanleika húðar
Hrukkur og fínar línur
Rakastig húðar
Ör eftir þrymlabólur
Stækkaðar húðholur
Litabreytingar
Í Phibright meðferðinni er notað tæki með örfínum nálum og eru sérstök serum með virkum efnum notuð samhliða meðferðinni. Gerð eru örfín göt á húðina sem húðin skynjar sem ertingu og fer af stað með viðgerðarferli. Í því ferli hefst framleiðsla á kollageni og elsastíni sem eru fyllingar- og teygjanleikaþræðir húðarinnar. Þessar sjálfvirku viðgerðir líkamans eru 100 % náttúrulegar og eru notaðar til viðgerða á allan líkamann og fæst þannig tvöföld áhrif gegn öldrun húðarinnar með örvun innan og utan frá.
Húðin verður þéttari og fær aukinn stinnleika sem var farinn á minnka og greinilega sést að fínar línur og smáhrukkur sléttast, blóðrás örvast, rakastig húðar eykst og almennt ástand húðarinnar batnar.
Hvernig meðferðin fer fram:
Öll efni og áhöld sem notuð eru til meðferðarinnar eru einnota og þannig tryggjum við fyllsta hreinlæti.
Í upphafi meðferðar fara viðskiptavinur og snyrtifræðingur yfir þau atriði sem óskað er eftir að vinna með. Því næst er húðin hreinsuð og snyrtifræðingur reiknar út hvaða serum nota skal í meðferðinni til að tryggja sem bestan árangur.
Einnota nálarhaus er notaður til að gera örfín göt á húðina og serumið sett á húðina samhliða.
Eftir meðferðina verður húðin strekkt, heit viðkomu en tilfinningin líkist sólbruna. Húðin getur verið dálítið rauð fyrstu klukkutímana og þessi áhrif ættu að vera alveg horfin eftir 12-24 klukkustundir. Þessi viðbrögð eru tákn um að húðin sé að bregðast vel við meðferðinni.
Kælandi og rakagefandi maski er settur á húðina í lok meðferðar.
Heimameðhöndlun er mikilvæg næstu 7 daga en í lok meðferðar fær viðskiptavinur sérblandað serum með sér heim sem hann ber á húðina 3x á dag þar til serumið klárast. Þannig náum við hámarksárangri í þessari stórkostlegu meðferð.
Eftir meðferð:
Mikilvægt er að þvo húðina ekki næstu 12 tímana og nota aðeins mild efni næstu 7 daga.
Fara ekki í sól fyrstu 2 dagana og nota sterka vörn næstu vikuna.
Ekki nota farða í 48 tíma.
Ekki fara í sund, sauna eða sólbekki næstu 7 daga.
Líkamsrækt og það sem veldur svitamyndun er ráðlagt að geyma í 5 daga.
Ekki fara í botox eða fylliefni í 4 vikur
Áhrif meðferðar:
Kollagenframleiðsla húðarinnar hefst strax og eftir fyrstu meðferðina eru áhrifin farin að sjást. Húðin er 28 daga að endurnýja sig og geta áhrif meðferðalotu varað í 6 – 12 mánuði. Ein meðferð sýnir augljósan mun á áferð húðar, rakamettun og fínum línum en mælt er með að taka 3-6 meðferðir til að vinna á dýpri vandamálum eins og hrukkum, litabreytingum, örum og stækkuðum húðholum.